Hver nennir svosem að lesa þetta?
...og af hverju ætti mér ekki að vera sama?


þriðjudagur, október 24  

Fyrst og fremst:
Jæja jæja, ætli maður láti þá ekki undan.
Fyrst og fremst ber að geta þess að lungan úr árinu hef ég verið að vinna sem blaðamaður, mestmegnis i hlutastarfi, og því fékk ég ágætis útrás fyrir bull-þörfina í vinnunni. Það má því segja að blogglostinn hafi verið í lágmarki.
Nú kveður hinsvegar við annan tón, enda hættur á Fréttablaðinu og byrjaður í umbrotinu á Blaðinu. Aðallega til að vera nær Selfossi.

Og svo...
Þessi færsla verður þó sett inn í nokkrum hlutum, eftir því hvað blaðamennirnir hér eru duglegir í dag.
Fyrst af öllu þarf ég að nöldra aðeins yfir femínistum.
Áður en lengra er haldið þarf það að koma fram að ég er jafnréttissinni, en get í ljósi framgöngu og skoðana íslenskra femínista ekki sett mig undir þeirra hatt.

Í frétt á mogganum í dag fara þeir til dæmis fram á að það sé bundið í lög að konur eigi "jafnan rétt" til setu á Alþingi við karla. Nú er staðan auðvitað þannig í dag að þær HAFA jafnan RÉTT. Hinsvegar eru femínistar að meina að hlutfallið eigi að vera jafnt.

Án þess að ætla að gera lítið úr einum eða neinum þá finnst mér alltaf réttara að stefna á að fá hæfasta fólkið í hvert starf. Hvort það þýðir að hópurinn samanstandi af einni konu og nítíuogníu mönnum, eða bara konum - það skiptir hreinlega engu máli. Ekki nema kannski við séum að tala um baðverði. Eða strippdansara (bara varð að skjóta inn smá karlrembu).

Vissulega er ákjósanlegt að hlutfall kynjanna sé sem jafnast. Ekki síst á Alþingi, þar sem þjókjörnir fulltrúar þessa lands sameinast um að gleyma þegnunum. En að binda það í lög eru mistök. Að hvetja fólk til að kjósa konur í efsta sæti í öllum prófkjörum, burtséð frá því hvort einhverjir karlar gætu átt betur heima þar eða ekki, það eru mistök. Og það er það sem íslenskir femínistar gera um þessar mundir.

Okkar allra brýnasta baráttumál í jafnréttum kynjanna árið 2006 er ekki að lögbinda kynjahlutfall á Alþingi, heldur að tryggja sömu laun fyrir sömu vinnu. Og athugaðu að þá er ég ekki að tala um sama starf, þar sem mér finnst allt í lagi að borga þeim sem standa sig vel í starfi meira en þeim sem koma minnu í verk. Heldur að sama vinna kalli á sömu laun.

Gallinn er sá að á meðan fólk lætur lág laun yfir sig ganga, frekar en að afþakka og leita hærri launa, á það ekki eftir að gerast. Það er nokkuð sem ég þekki persónulega.

En samt...
Hvalveiðar eru mál málanna í dag.
Ég er persónulega hlynntur ábyrgri hvalveiði og er alveg til í að láta hart mæta hörðu í samskiptum þjóðanna og heimsóknum útlendinga (það eru hvort eð er bara Green-Peace vælukjóarnir sem láta þetta stoppa sig og þeir bíta bara gras og drekka vatn sem þeir koma með að heiman, vandlega falið í flöskum í endaþarminum).

Staðreyndir munu vera þær að aðeins er veitt úr stofnum sem eru ekki í útrýmingahættu, æti í hafinu virðist hafa minnkað og ef einhver vill kaupa þetta kjöt er um að gera að veiða dýrin.

Rökin á móti hvalveiðum hafa nefnilega ekkert með hvalveiðarnar sjálfar að gera, heldur viðbrögð alþjóðasamfélagsins við þeim. Þó að erlendir fjölmiðlar haldi reyndar sumir að við séum að veiða dýr í útrýmingahættu eru ekki til nein góð rök fyrir því að nýta ekki þá hvalastofna sem mega við því. Nema að þá verður allt vitlaust í Sviss.

Sviss liggur ekki einu sinni að sjó.

Þegar var ljóst að við myndum byrja að veiða hvali aftur fannst mér gott að við þyrðum loksins að gera eitthvað annað en að lúffa fyrir Bandaríkjamönnum í einu og öllu. En þá mundi ég að Bandaríkin eru næstmesta hvalveiðiþjóð í heimi á eftir Japönum, og hafa reyndar oft verið stærri en þeir.
Yfirskyn Bandaríkjamanna eru frumbyggjaveiðar, sem voru hluti af samkomulagi um bætur fyrir lendur indíananna. Staðreyndin er náttúrulega sú að minnstur hluti þeirra Bandaríkjamanna sem vinna við hvalveiðar eru indíánar, heldur er þetta bara rífandi bissness.

Við erum því enn og aftur ekki að sýna sjálfstæði, frumkvæði og kjark. Við erum bara að gera eins og Pabbi Ameríka.

[Viðbót 25.10.06: Ég fór víst ekki alveg rétt með. Hvalveiðiþjóðirnar (miðað við tölur í fyrra) skiptast svona: Japan (1.233 hvalir), Noregur (647 hvalir), Grænland (193 hvalir), Rússland (126 hvalir), Bandaríkin (68 hvalir), Ísland (39 hvalir) og Kanada (1 hvalur).

Aðeins Norðmenn skýla sér ekki bakvið vísinda- eða frumbyggjaveiðar.]

Kannski...
Er þetta ekki nóg í bili?

[]

Dig it? | Röflað kl.13:45 | Word to tha muthafucka?
This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Weblog Commenting by HaloScan.com
Svona linka-dót
Svona gamalt dót