Hver nennir svosem að lesa þetta?
...og af hverju ætti mér ekki að vera sama?


þriðjudagur, júlí 18  

Fyrst og fremst:
Það má gera margt verra við tíma sinn en að skoða myndir af henni Djessíku Ölbu.

Til dæmis að spá í olíuverð.

Og svo...
Fór loksins aftur á námskeið hjá björgunarsveitinni í kvöld. Námskeiðið var í fluglínutækni. Skemmtileg græja. Gaman að hitta líka aftur þá hressalinga sem voru þar.

En samt...
Þórsmörk um næstu helgi. Tvöfalt 25 ára ammli. Stuð.
Vinnupartý og þrítugsammli um síðustu helgi. Líka stuð.

Kannski...
Búinn að komast að því að mitt helsta vandamál er að mig langar allt of margt. Er til dæmis, aldurs vegna, búinn að strika geimferðir og Mt. Everest af listanum. Þá eru bara þrjúhundruðogeitthvaðþúsund atriði eftir.
Sumir finna sér eitthvað skemmtilegt og stunda það þangað til þeir verða mjög góðir í því. Ég er meira þannig að ég vil prófa allan andskotann og er skítsama hvort ég er góður í því eða ekki. Ég segi svo sem hvorki að það sé eitthvað betra eða eitthvað verra - þetta er meira svona lóðrétt eða lárétt.

Og þó...
Maggi próförk hefur tekið upp nýstárlegan sið á heimasíðu sinni. Hann kemur með orðagátur og svörin felast í orðatiltækjum úr latínu eða gvuðmávitahvað.

Ég er einfaldlega ekki nógu gáfaður/lesinn til að standa í svoleiðis - en finnst þetta samt ægilega sniðugt.

Svona gáfumannahúmor minnir mig alltaf á eina gáfumannabrandarann sem ég skil (og er þessvegna líklega ekki nógu flókinn til að vera í þeim flokki):

-Það eru til 10 tegundir af fólki í heiminum - þeir sem skilja binary kóða og þeir sem skilja hann ekki.

Sko...
Einn fróðleiksmoli í lokinn. Mig minnir að það hafi verið við hönnun Bugatti Veyron, þúsund hestafla froskabílsins, sem þetta gerðist - endilega leiðréttið mig ef það var við hönnun annars bíls...
En semsagt, það var verið að leita leiða til að gera hann hraðskreiðari - enda átti að slá út hraðamet Koenigsegg bílsins. Í því ferli var ákveðið að breyta speglunum og gera þá minni og enn straumlínulagaðri. Gott og vel - hraðinn jókst pínulítið en við breytinguna missti bíllinn veggrip. Gömlu speglarnir áttu semsagt hlut í því að búa til niðurkraft (downforce) sem ýtti bílnum niður á götuna. (Þegar downforcið er ekki nóg eiga bílar það til að taka á flug og enda úti í runna - sem þykir ákveðinn galli). Því var speglunum breytt aftur og annarra leiða leitað.

Þegar speglarnir eru farnir að hafa áhrif á það hvort þú takir flugið eða ekki - þá veistu að þú ert að fara hratt...

Óverendát.

[]

Dig it? | Röflað kl.23:55 | Word to tha muthafucka?
This page is powered by Blogger. Isn't yours?


Weblog Commenting by HaloScan.com
Svona linka-dót
Svona gamalt dót