mánudagur, maí 8
Fyrst og fremst: Ég held að það hljóti að vera gaman að vera stjórnmálamaður. Að minnsta kosti fyrir kosningar. Maður fær að lofa fullt af hlutum og ef maður virkar sannfærandi er séns að fólki lítist vel á mann.
"Já, þetta er góður gæi - hann hugsar svo vel um okkur hin."
Mesta hættan er auðvitað sú að maður fari að trúa því sjálfur að maður ætli í raun að efna loforðin.
Let's recap: Mannstu hverju meirihlutaflokkarnir í þinni sveitarstjórn lofuðu fyrir fjórum árum? Mannstu hversu mikið þeir hafa staðið við? Mannstu hversu margar ákvarðanir sem voru teknar í stjórnunartíð þeirra flokka eru þér ekki að skapi?
En þetta er auðvitað ekki svo einfalt. Sumir flokkar eru nefnilega einstaklega lagnir við að eigna sér framfarir, þó svo að þær séu einkaframtak, eða jafnvel ekki á mannlegu valdi.
"Við sögðumst vilja bíó - og nú er komið bíó!" Eftir rúmlega 20 ára loforð að hálfu allra framboðsflokka á Selfossi, síðar Árborg, var loks um einkaframtak að ræða sem bærinn hafði álíka mikið að gera með og hvert annað kompaní sem hyggur á rekstur í húsnæði á vegum sveitarfélagsins. Rétt nóg til að eigna sér heiðurinn.
Bara svo ég taki nærtækt dæmi.
Í Riggavigg er annað uppi á teningnum. Þar keppast stóru flokkarnir við að þykjast betri en hvor annar. R-listinn er enn að sópa upp skítinn eftir stjórnartíð sjálfstæðismanna, sem á móti benda á þá galla sem þeir tóku sjálfir þátt í að skapa, merkja þá R-listanum og lofa bót og betrum, verði þeir kosnir. Það gleður mig óendanlega að í Reykjavík sé loksins orðið nógu mikið af fólki sem áttar sig á því út á hvað sjálfstæðisflokkurinn gengur út á í raun og veru; ég, um mig, frá mér, til mín.
Ekki svo að skilja að R-listinn sé fullur af dýrlingum. Það jaðrar við þjóðaríþrótt hjá þeim að lækka skatta en hækka þjónustugjöld á móti, og helst aðeins betur. Það er auðvitað auðvelt að lofa skattalækknum með þessum formerkjum. Ég gæti reynt eitthvað svipað:
"Þetta verkefni kemur til með að kosta þig 10.000 kr!"
Og við útskrift reikninga:
"Verkefni: 10.000 kr. Þjónusta tengd verkefni: 95.000 kr."
Og svo... Ég hélt alltaf að fólk sem talaði illa um stjórnmál væri bara ekki nógu vel að sér í þeim. Trúði því í barnslegri einlægni minni að stjórnmálamenn létu stjórnast af hugsjónum og almannaheill.
Þannig hefur það auðvitað aldrei verið. Stjórnmál snúast fyrst og fremst um að tryggja hagsmuni ákveðinna fylkinga. Það er ekki nema rétt í kringum kosningar sem kjósendur ná upp á pallborðið.
Eftir því sem ég heyri og les meira um stjórnmál er það að kristallast fyrir augum mér að íslensk pólitík er fyrst og fremst leikur þeirra sem taka þátt, ekki ósvipað borðspilinu Risk.
Samskipti stjórnmálaflokka einkennast af "ef þú klórar mér núna, þá klappa ég þér á morgun" og einstaklingurinn í flokknum gerir hvað sem hann getur til að fá að halda áfram að spila. Því við vitum öll að það er leiðinlegt að vera "úr" í leik, sama hvaða nafni hann nefnist.
Þetta holdgerist nánast í einni frægri setningu:
"Á Alþingi eru tvö lið..."
Ef þú mannst ekki hvaðan þessi setning er komin áttu ekki skilið að vera með kosningarétt - vertu heima á kjördag... fyrir okkur hin!
En samt... Það er fátt sem nær manni meira upp á háa c-ið en stjórnmálaumræða. Ég viðurkenni fúslega að ég fylgist ekki nógu mikið með einstaka málsmeðferðum til að taka þátt í vitrænni umræðu um viðfangsefni líðandi stundar. Til þess er ég með of mikla óbeit á leiknum. Leikurinn er leikur þeirra sem spila, ekki þeirra sem eru færðir fram og til baka á spilaborðinu.
Á ferðalögum mínum til annarra (mikið væri gaman að geta sagt "fjarlægra" - ég þarf að fara að vinna í því) landa þykir mörgum merkilegt að hitta fyrir mann eins og mig; Íslending. Þeir sem eru vel að sér í sögu spyrja gjarnan hvort við "eigum ekki elsta þing í heimi".
Og ég svara "Jú, og það er ekki ennþá farið að virka".
Sú uppstilling sem er viðhöfð, ekki bara á Alþingi, heldur í allri opinberri stjórnsýslu, að hafa stjórn og stjórnarandstöðu, er sennilega það sem gerir þetta stjórnarfar gríðarlega óskilvirkt. Og þá er ég ekki einu sinni að tala um sambandsrofin við kjósendur - þau hafa verið til staðar síðan fyrsti alþingismaðurinn fékk næg laun til að lifa á.
Nei, ég er að tala um allt karpið og málamiðlanirnar sem þetta hefur í för með sér. Ekki endilega af því að flokkarnir eru ósammála, heldur af því að þeir verða að láta í sér heyra, og benda á hvaða agnúa sem er. Það er hlutverk þeirra. Ef þeir gerðu þetta ekki mundi almenningur gleyma þeim. Nema kannski Össuri Skarphéðinssyni - maður sem er jafnleiðinlegur og hann gleymist seint, hvað þá ef hann er sérfræðingur í kynlífi fiska.
Kannski... Og rót vandans, tel ég, liggur í flokkakerfinu. Ef kosningar snerust um einstaklinga, en ekki flokka, og allir kjörnir myndu svo mynda sameiginlegt stjórnarafl næsta kjörtímabil, væri þetta að mörgu leiti einfaldara. Þá væru ekki tvær stórar blokkir að berjast og fólk hefði tíma til að sinna okkur kjósendum - að ég tali nú ekki um kosningaloforðinu.
En líklega stafar þetta af enn djúpstæðari vanda; þörf mannskepnunnar fyrir því að flokka sig og aðra og tilheyra hópi. Svo virðist vera að fólk eigi mjög erfitt með því að meta fólk út frá einstaklingseiginleikum og dragi annað fólk, og sig sjálft, stanslaust í dilka, sem ættu í raun ekki að skipta neinu máli. Tökum dæmi:
"Við unnum í gær" - það allra sorglegasta, þegar fólk flokkar sig eftir íþróttafélögum sem það horfir á í sjónvarpinu heima í stofu.
"Hommar eru yndislegt fólk" - ég þekki alveg leiðinlega homma, þeir eru bara misjafnir eins og annað fólk.
"Ég hef alltaf verið hrædd við svertingja" - munið þið eftir sögunni um Eddy Murphy í lyftunni?
"Selfyssingar eru hnakkar sem hlusta bara á FM" - já, einmitt. Sjáðu bara Ármann Inga.
"sjálfstæðismenn eru beinir afkomendur djöfulsins" - ég held reyndar að það gæti verið sannleikskorn í þessu... þ.e.a.s. ef ég tryði á guð - og þarafleiðandi djöfulinn.
Þannig að það er í raun mjög vitlaust að flokka fólk yfir höfuð, en sennilega nauðsynlegt af því að við höfum þörf fyrir að eiga samastað í veröldinni. Hann finnum við í okkar hópum og þar afleiðandi myndast andstæðingarnir "við" og "þeir".
Og svo má kannski segja að ef fólk vill endilega tilheyra hópi, þá getur það bara sætt sig við afleiðingarnar.
Ef Leeds tapar leik, þá þýðir ekkert að væla - þú kaust sjálfur að halda með þeim, fíflið þitt.
Ef þú skilgreinir þína eigin persónu fyrst og fremst eftir þinni eigin kynhneigð, þá skaltu bara sætta þig við það að annað fólk geri það líka.
Þeir sem eru of uppteknir við að tilheyra kynstofni til þess að líta á sjálfan sig, og aðra, sem persónu, óháð félagslegum aðstæðum, verða bara að sætta sig við að þeir verða aldrei hluti af mannkyninu, bara einum hluta þess.
Ef þú hlustar á FM og litar á þér hárið... er þér þá ekki alveg sama hvort þú ert kallaður hnakki eða ekki? Þú ert það hvort eð er...
Út frá þessu má því segja að það sé í ákveðnum tilfellum í lagi að draga fólk í fyrirfram fordæmda dilka, og því vel við hæfi að enda þetta raus á eftirfarandi staðhæfingu: "Það er ekkert til sem heitir stjórnmálamaður - bara stjórnmálaflokkar."
[]
Dig it? | Röflað kl.16:02 | Word to tha muthafucka?
|