fimmtudagur, mars 9
Fyrst og fremst: Snillingur vikunnar er hiklaust Styrmir Moggaritstjóri. "Byrjaðu að klæða þig úr, ég kem eftir tvo daga...!"
Einhvernvegin svona var höstl ársins - í tölvupósti til Jónínu Ben.
Samt eitt sem ég skil ekki. Ef ég hefði jafn svakalegt álit á mér sem höstler og Stymmi gerir greinilega (að geta ætlast til þess að einhver kona bíði berrössuð í tvo daga eftir sér...) - væri maður þá ekki að setja markið ögn hærra en Jónínu Ben?
Og svo... Lumma vikunnar eru stjórnmál. Allir flokkar eru að undirbúa stórsókn á næstu vikum og koma til með að segja þér nákvæmlega það sem þeir halda að þú viljir heyra. Hvernig vitum við hvort við getum treyst þeim? Jú, finndu kosningaloforð og stefnumál sem eru orðin 4 ára gömul og berðu þau saman við ástandið heima í héraði í dag. Kosningabarátta er sirkus sem er settur á svið til að ná atkvæðum. Samhengi baráttunnar við raunveruleikann rofnar í allsherjarfylleríi á kosninganótt.
Vertu Íslendingur. Skilaðu auðu.
En samt... Djók vikunnar er brottför Árna Magnússonar úr stjórnmálum. Sú var tíðin - þegar lýðræði þjóðarinnar var ungt - að efnamenn settust á þing. Þeir töldu sig eiga meiri hagsmuna að gæta en aðrir og töldu þeirra best gætt með þá sjálfa við stjórnvölinn. Þá var leiðin semsagt: Ríkur - Ferð á þing.
Nú hefur dæmið snúist við. Ef þú ert nógu sveigjanlegur og þrautseigur getur hver sem er endað á þingi, unnið sig upp metorðastigann með fögrum loforðum um betri tíð og labbað svo frá öllu saman í milljón kall á mánuði hjá hinum eða þessum bankanum.
Góðu fréttirnar eru kannski þær að við þessa leikfléttu datt Siv Friðleifs aftur inn í ráðherrastól. Að vísu ekki þann gamla góða, heldur heilbrigðis- og tryggingamálaráðuneytinu. Siv hefur alltaf verið í smá uppáhaldi hjá mér og mér var illilega brugðið þegar henni var sópað út fyrir nokkrum mánuðum.
Auðvitað er samt galli á gjöf Njarðar. Heilbrigðismál íslensku stjórnarinnar eru í svo miklum ólestri að það gæti orðið banahögg Sivjar að stökkva um borð í þessa sökkvandi skútu.
"Hvaða ólestri," spyrð þú? Jú sko... Finnst þér ekkert athugavert við það að á sama tíma og áætlað er að dæla milljörðum í nýtt hátæknisjúkrahús er erfitt að manna allar vaktir á þeim sjúkrahúsum sem fyrir eru, vegna takmarkaðra fjárframlaga. Á landsbyggðinni prísa menn sig sæla ef þeir geta haldið skurðstofum opnum nokkra daga á ári og þó að læknar okkar búi yfir þekkingu, reynslu og mannafla til að þjónusta miklu fleiri sjúklinga og framkvæma miklu fleiri aðgerðir geta þeir það ekki vegna þess að það er ekki til peningur.
Hverskonar þjóð setur heilbrigðismál í bakgrunn í fjárlögum og ætlar samt að byggja hátæknisjúkrahús a la Orkustofnun (ég gerði óvart ásláttarvillu og skrifaði Okurstofnun... það var alveg fyndið...)???
Fólk vill ekki nýjustu tækni. Það vill bara komast af biðlista og inn til læknanna!!!
Kannski... Sorg vikunnar eru framkvæmdirnar á Hellisheiði. Síðar á þessu ári verða þar rétt tæplega 90 borplön, hvert um sig með pípulagnir í átt að Hellisheiðavirkjun. Hvað verður þá um Hellisheiði sem útivistarsvæði?
Af hverju fór Hellisheiðin, sem iðar af mannlífi allar helgar (maður sér það reyndar ekki nema maður viti hvar á að leita), ekki í umhverfismat? Hellisheiðin versus Kárahnjúkar - staður sem fæstir Íslendingar vissu að væri yfir höfuð til - mér finnst að einhver hafi sofnað á verðinum. Er kannski allt í lagi að skemma útivistar- og náttúruperlu, bara af því að hún er innan við klukkutíma akstur frá höfuðborginni? Hvar eru helv... náttúrufanatíkurnar núna?
[]
Dig it? | Röflað kl.00:17 | Word to tha muthafucka?
|